Sport

Anníe Mist ofar en Katrín Tanja: Allt í lagi þótt ég líti ekki út eins og áður

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir náði níunda besta árangrinum í Evrópu aðeins átta mánuðum eftir að hún eignaðist Freyju Mist.
Anníe Mist Þórisdóttir náði níunda besta árangrinum í Evrópu aðeins átta mánuðum eftir að hún eignaðist Freyju Mist. Instagram/anniethorisdottir

Anníe Mist Þórisdóttir náði bestum árangri íslensku CrossFit stelpnanna í „átta manna“ úrslitum heimsleikanna í CrossFit en hún var tveimur sætum á undan Katrínu Tönju Davíðsdóttur. Björgvin Karl Guðmundsson varð sá fimmti besti í Evrópu.

CrossFit samtökin hafa nú endanlega staðfest úrslitin úr átta manna úrslitunum eftir að hafa farið vel yfir æfingarnar sem íþróttafólkið skilaði inn í gegnum netið. Það vekur athygli að nýja mamman í íslenska CrossFit hópnum var best allra íslensku stelpnanna í þessum hluta.

Þrjú hundruð karlar og þrjú hundruð konur tryggðu sér sæti í næsta hluta sem er þátttökuréttur í einni af tíu undankeppnum þar sem efstu sætin gefa síðan sæti á heimsleikunum í haust. Ísland á alls sjö fulltrúa af þessum sex hundruð bestu í CrossFit heiminum í dag.

Anníe Mist Þórisdóttir stóð sig svo vel í endurkomu sinni í CrossFit eftir barnsburð að engin af íslensku stelpunum náði að gera betur en hún í „átta manna“ úrslitum.

Íslensku keppendurnir voru í evrópska hlutanum en alls sextíu efstu í Evrópu tryggðu sér sæti í undanúrslitunum. Katrín Tanja Davíðsdóttir keppti þannig í evrópska hlutanum þrátt fyrir að vera búsett í Bandaríkjunum.

Anníe Mist endaði í níunda sæti í Evrópu en bestum árangri náði hin ungverska Laura Horváth og í næstu sætum voru þær Gabriela Migala frá Póllandi og Kristin Holte frá Noregi. Katrín Tanja varð í ellefta sæti og Þuríður Erla Helgadóttir endaði í átjánda sæti. Sólveig Sigurðardóttir varð síðan í 44. sæti og var sú síðasta af íslensku stelpunum sem tryggði sig áfram í næsta hluta.

Björgvin Karl Guðmundsson varð efstur íslensku strákanna en hann náði fimmta besta árangrinum í Evrópu og er kominn áfram í undanúrslitin ásamt þeim Haraldi Holgerssyni (55. sæti) og Þresti Ólasyni (56. sæti).

Anníe Mist gerði upp stöðuna á sér í pistli á Instagram.

„Ég lít ekki út eins og áður en það er allt í lagi. Núna er ég passa upp á að endurhlaða orkuna fyrir næstu frammistöðu og líkaminn minn er bara eins og hann er og hann mun fá sinn tíma til að koma til baka. Restin fylgir síðan í kjölfarið,“ skrifaði Anníe Mist Þórisdóttir.

„Ég er aftur farin að mæla og vigta það sem ég borða til að passa upp að ég borði rétt fyrir æfingarnar,“ skrifaði Anníe Mist eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×