Reuters greinir frá og hefur eftir Ali Bayati, hjá Mannréttindanefnd Íraks, að fjöldi látinna hafi ekki enn verið staðfestur en áætlað sé að á bilinu 30 til 45 kunni að vera látin. Þá herma fréttir að 90 hafi verið bjargað af þeim um 120 sjúklingum sem nutu aðhlynningar vegna alvarlegra veikinda af völdum covid-19.
Aðstandendur sjúklinga munu hafa reynt að aðstoða við að bjarga ástvinum sínum úr eldsvoðanum. Maður sem hafði verið að heimsækja bróður sinn á spítalann segist hafa séð fólk stökkva út um glugga til að forða sér frá eldinum.
„Eldurinn dreifðist, eins og eldsneyti… Ég tók bróðir minn út á götu við öryggishliðið. Síðan snéri ég við og fór upp þaðan. Á efstu hæðinni, sem brann ekki, ég fann stúlku sem var að kafna, um nítján ára gömul, hún var að kafna, hún var við það að deyja,“ er haft eftir bróðurnum Ahmed Zaki.
„Ég tók hana á herðarnar og hljóp niður. Fólk var að stökkva… Læknar lentu á bílunum. Allir voru að stökkva. Og ég hélt áfram að fara upp, sótti fólk og kom aftur niður,“ bætir Zaki við.
Þeir sjúklingar sem komust af munu hafa verið fluttir á önnur sjúkrahús. Mustafa al-Kadhimi, forsætisráðherra Írak, hefur fyrirskipað opinbera rannsókn á eldsvoðanum.
Uppfært: í fyrri útgáfu fréttarinnar sagði að 27 hefðu látist í eldsvoðanum en samkvæmt uppfærðri frétt breska ríkisútvarpsins létust minnst 82.