Handbolti

Lærisveinar Guðmundar töpuðu í Íslendingaslag

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðmundur Guðmundsson hefur séð lið sitt tapa þremur leikjum í röð. Fram undan hjá honum eru þrír leikir með íslenska karlalandsliðinu.
Guðmundur Guðmundsson hefur séð lið sitt tapa þremur leikjum í röð. Fram undan hjá honum eru þrír leikir með íslenska karlalandsliðinu. EPAAnne-Christine Poujoulat

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í Melsungen töpuðu 32-30 fyrir toppliði Flensburgar í Íslendingaslag í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Flensburg er í harðri titilbaráttu við Kiel.

Melsungen byrjaði leikinn betur og var liðið með tveggja marka forystu framan af fyrri hálfleik. Flensburg jafnaði um hann miðjan og tók þá yfir. Mest náði Flensburg fjögurra marka forystu en staðan í hléi var 18-15, Flensburg í vil.

Flensburg komst fimm mörkum yfir snemma í síðari hálfleiknum en Melsungen tókst að minnka muninn í eitt mark, 24-25, þegar 13 mínútur voru eftir. Nær komst Melsungen þó ekki, Flensburg hélt forystunni til loka og vann tveggja marka sigur, 32-30.

Alexander Petersson komst ekki á blað í liði Flensburgar en Arnar Freyr Arnarsson skoraði eitt fyrir Melsungen.

Flensburg er eftir sigurinn með 46 stig á toppi deildarinnar, þremur á undan Kiel sem á leik inni og getur því minnkað bilið í eitt stig. Tap Melsungen var þeirra þriðja í röð en liðið er með 25 stig í níunda sæti, fjórum stigum frá Evrópusæti.

Fram undan hjá Guðmundi eru þrír landsleikir íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM, sá fyrsti gegn Ísrael á þriðjudag. Tandri Már Konráðsson var kallaður upp í hópinn í dag vegna sóttkvíar Arnórs Þórs Gunnarssonar og Elvars Ásgeirssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×