Erlent

Ber að greiða manni sem hann hélt í þrælkun tvöfaldar bætur

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bobby Edwards var dæmdur í tíu ára fangelsi. Hann játaði glæpinn.
Bobby Edwards var dæmdur í tíu ára fangelsi. Hann játaði glæpinn.

Áfrýjunardómstóll hefur komist að þeirri niðurstöðu að tvöfalda beri bætur sem manni voru dæmdar, eftir að hann var látinn vinna hundrað klukkustundir á viku í mörg ár án þess að fá greidd laun.

Bobby Edwards var dæmdur í tíu ára fangelsi árið 2019, fyrr að hafa haldið John Christopher Smith föngum í mörg ár og látið hann vinna á veitingastað sínum án greiðslu. Dómstóll í Suður-Karólínu dæmdi hann einnig til að greiða Smith jafnvirði 34 milljóna króna í bætur.

Áfrýjunardómstóll komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í apríl að þar sem Edwards hefði einnig brotið gegn ákvæðum vinnumarkaðslöggjafarinnar bæri honum að greiða Smith tvöfalt hærri upphæð.

Í löggjöfinni segir að ef greiðslufrestun vinnuveitenda veldur launþega svo miklu tjóni að það hafi áhrif á lágmarkslífsgæði viðkomandi, þá beri honum að greiða tvöfalda upphæðina.

Smith hóf störf á veitingastaðnum þegar hann var tólf ára gamall en fyrstu nítján árin var staðurinn í eigu ættingja Edwards. Þegar hann tók við rekstrinum árið 2009 flutti hann Smith inn í íbúð við hliðina á veitingastaðnum og neyddi hann til að vinna 100 tíma á viku, launalaust.

Edwards er sagður hafa nýtt sér það að Smith er greindarskertur og þá sá hann til þess að hann einangraðist frá fjölskyldu sinni. Smith óttaðist einnig Edwards, sem beitti hann miklu harðræði og barði hann meðal annars með belti og eldhúsáhöldum.

Af þessum sökum gerði hann aldrei tilraun til að flýja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×