Starfsmaður RÚV tók við símtali klukkan 19:00 um að sprengja ætti að springa utan við Útvarpshúsið seinna um kvöldið í gær, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Lögregla fylgdist með svæðinu og leitaði en ekkert óeðlilegt fannst.
Á svæði lögreglustöðvar þrjú fyrir Hafnarfjörð, Garðabæ og Álftanes barst tilkynning um að ekið hefði verið á barn á reiðhjóli í gær. Barnið er sagt talið lítið slasað en farið var með það á slysadeild. Lögregla ræddi við ökumanninn og er málið sagt í rannsókn.
Í Hafnarfirði gerði lögregla upptæka ræktun á kannabisplöntum. Einn var handtekinn og yfirheyrður en honum sleppt að því loknu.
Mikið var um útköll vegna hávaða og ölvunar í gærkvöldi og nótt auk þess sem lögregla hafði afskipti af ellefu ökumönnum sem voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Í póstnúmeri 104 var tilkynnt um líkamsárás en gerandi var farinn af vettvangi þegar lögreglumenn bar að garði. Lögregla telur að fórnarlambið hafi ekki orðið fyrir alvarlegum áverkum.