Handbolti

Viðurkennir að hafa sett meira púður í að ráða hæfa þjálfara fyrir stráka en stelpur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svava Kristín Grétarsdóttir ræddi um framtíð kvennahandboltans á Íslandi við þau Írisi Ástu Pétursdóttur og Arnar Pétursson.
Svava Kristín Grétarsdóttir ræddi um framtíð kvennahandboltans á Íslandi við þau Írisi Ástu Pétursdóttur og Arnar Pétursson. stöð 2 sport

Arnar Pétursson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, viðurkennir að hafa lagt meiri áherslu á að hafa ráðið færa þjálfara fyrir yngri flokka karla en kvenna þegar hann var yfir handboltamálum hjá ÍBV.

Arnar og Íris Ásta Pétursdóttir ræddu við Svövu Kristínu Grétarsdóttur um framtíð kvennahandboltans á Íslandi í sérstökum aukaþætti af Seinni bylgjunni.

Arnar segir að það þurfi að gefa í þegar kemur að þjálfun yngri flokka kvenna og viðurkennir að hafa sjálfur sett meira púður í að ráða hæfustu þjálfarana til strákaflokkana.

„Ég þekki það bara frá sjálfum mér. Þegar ég var hjá ÍBV lagði ég áherslu, þegar ég var að ráða þjálfara fyrir yngri flokkana, að ráða þá karlamegin,“ sagði Arnar í Seinni bylgjunni.

„Við náðum í toppþjálfara fyrir þessa flokka sem við áttum þar. Við fengum Árna Stefánsson til Eyja í tvö ár, son hans Stefán líka, Jakob Lárusson og fleiri góða til að þjálfa þessa strákaárganga sem við ætluðum að fá leikmenn í meistaraflokk úr. Á sama tíma vorum við ekki mikið að spá í hvað var að gerast hinum megin.“

Klippa: Seinni bylgjan - Umræða um yngri flokka þjálfun

Arnar segir nauðsynlegt að fleiri konur inn í starfið hjá íþróttafélögum, hvort sem það er í þjálfun eða stjórn.

„Okkar ástríða lá svolítið í því að halda áfram því sem við vorum að gera. Við vorum að spila, svo fórum við að þjálfa og sumir fóru í stjórn. Þar af leiðandi fór ástríðan áfram í það að gera vel. Ég held við verðum að fá fleiri konur inn í þjálfun og starfið, þær sem hafa ástríðu fyrir því sem er verið að gera í yngri flokkunum. Þá mun þetta allt eflast en þetta er bara einn partur,“ sagði Arnar.

Horfa má á þáttinn í heild sinni inni á Stöð 2+.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×