Sport

Vildi tapa legg: „Mesti há­vaði sem ég hef heyrt“

Sindri Sverrisson skrifar
Það fór vel á með Luke Humphries og Paul Lim í Alexandra Palace í kvöld.
Það fór vel á með Luke Humphries og Paul Lim í Alexandra Palace í kvöld. Getty/John Walton

Það var falleg stund á HM í pílukasti þegar 71 árs gamla goðsögnin Paul Lim, vægast sagt dyggilega studdur af áhorfendum, náði að vinna einn legg á móti Luke Humphries sem gat ekki annað en brosað. Humphries sagðist hreinlega hafa viljað tapa leggnum.

Humphries, sem varð heimsmeistari fyrir tveimur árum, átti ekki í neinum vandræðumm með að vinna 3-0 sigur gegn Lim. Hann hefði vel getað unnið öll þrjú settin 3-0 en Lim náði að vinna legg í lokasettinu og var ákaft fagnað.

„Maður vill ekki alltaf rústa andstæðingnum. Það er þannig með suma en ekki aðra og hann er einn af þeim sem þig langar ekki til að rústa,“ sagði Humphries eftir sigurinn.

„Fyrir mér var bara aðalatriðið að vinna. Ég var kominn í góða stöðu eftir fyrstu tvö settin.

Hann [Lim] er algjör goðsögn og ég dýrka hann gjörsamlega. Vonandi var þetta ekki í síðasta sinn sem við sjáum hann á sviðinu. Ég vona að hann komi aftur að ári, að við mætumst ekki og hann fái að slá út aðra,“ sagði Humphries.

Humphries vissi vel að áhorfendur yrðu á bandi Lim sem virtist skemmta sér vel þrátt fyrir yfirburði Englendingsins.

„Það var bara gaman að spila við hann aftur. Ég er aðdáandi en því miður þurftum við að mætast og ég þurfti að klára mitt í kvöld. En þetta var stórkostlegasta andrúmsloft sem ég hef upplifað. Þegar fólkið kallaði nafnið hans þá var það mesti hávaði sem ég hef heyrt,“ sagði Humphries, ánægður með stöðu sína í dag eftir tapið fyrir Lim fyrir nokkrum árum.

Leikirnir í kvöld unnust af nokkru öryggi og komust Englendingarnir Charlie Manby og Nathan Aspinall áfram, ásamt Hollendingnum gian van Veen. 

Úrslit kvöldsins:

  • Charlie Manby - Adam Sevada, 3-0
  • Luke Humphries - Paul Lim, 3-0
  • Nathan Aspinall - Leonard Gates, 3-0
  • Gian van Veen - Alan Soutar, 3-1

Mótið heldur svo áfram á morgun með átta leikjum, í beinni útsendingu á Sýn Sport Viaplay, þar sem menn á borð við Peter Wright, Gary Anderson og Michael van Gerwen verða á ferðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×