Alma sagði smitrakninguna vera og verða einn af hornsteinum yfirvalda til að sporna gegn útbreiðslu kórónuveirunnar í samfélaginu. Með uppfærslu smáforritsins yrði smitrakningin sjálfvirkari en áður en fyrst og fremst væri um að ræða viðbót við núverandi aðgerðir.
Sambærilegt app er í notkun í mörgum öðrum Evrópuríkjum, að sögn Ölmu. Eftir uppfærsluna mun smáforritið skrá „samtöl“ sem það á við aðra síma með appið og vista. Ef einstaklingur greinist með Covid-19, mun smitrakningarteymið óska eftir því að fá upplýsingar um þessi „samtöl“ og þannig getað haft samband við þá sem voru í nálægð við þann smitaða.
Alma ítrekaði að forritið uppfyllti kröfur um bæði öryggi og persónuvernd. Gögnin væru aðeins vistuð á símanum og eigandi hans þyrfti að gefa leyfi fyrir notkun þeirra. Þá væri þeim eytt eftir fjórtán daga.
Þeir sem vilja nýta sér nýjungina verða að uppfæra smáforritið og velja að fá tilkynningar um hugsanleg smit. Ef tilkynning berst leiðbeinir appið viðkomandi um að skrá sig í smitgát, sem er valkvætt, og fær í kjölfarið strikanúmer í sýnatöku.
Forsenda góðs árangurs er að sem flestir sæki appið, sagði landlæknir og ítrekaði að yfirvöld teldu Bluetooth-eiginleikann sérstaklega miklivægan um þessar mundir, þegar samfélagið væri að verða opnara á ný.
Biðlaði hún sérstaklega til unga fólksins sem væri mikið á ferðinni að uppfæra og nota forritið.