Nú er komið í ljós að Sindri braut tvö rifbein þegar hann fór í tæklingu gegn Herði Inga Gunnarssyni.
Sindri Snær Magnússon braut 2 rifbein í leiknum gegn FH í gærkvöldi.
— ÍA Akranes FC (@ia_akranes) May 14, 2021
Óskum Sindra góðan bata
Sindri var bersýnilega þjáður og lá eftir á vellinum, og eftir að sjúkraþjálfari hljóp inn á til að hlú að honum var hann látinn liggja grafkyrr. Ekki þótti óhætt að lyfta honum á sjúkrabörur fyrr en að sérhæfðir sjúkraflutningamenn mættu í Kaplakrika á sjúkrabíl sem flutti Sindra á brott.
Atvikið má sjá hér að neðan.
Dómari leiksins, Sigurður Hjörtur Þrastarson, virtist ætla að sýna Sindra gula spjaldið fyrir brotið á Herði en beið með það á meðan að Sindri lá meiddur. Blaðamaður Vísis á staðnum sá gula spjaldið aldrei fara á loft en í leikskýrslu á vef KSÍ er Sindri þó skráður með gult spjald, og sennilegt að Sigurði hafi þótt taktlaust að áminna sárþjáðan Sindra á staðnum með því að lyfta spjaldinu.
Árni Snær Ólafsson, markvörður ÍA, virtist slíta hásin undir lok leiksins, sem FH vann 5-1, en það lá þó ekki endanlega fyrir í gærkvöld og óvíst hve lengi hann verður frá keppni.