
Starfsmenn verkfræðistofunnar Verkís, sem hafa umsjón með gerð varnargarðanna í syðsta Meradalnum, tóku eftir því um þrjúleytið í gær að fljótandi hraunelfur kom undan storknuðu hrauninu og tók á rás meðfram eystri jaðri hraunsins með vesturhlíðum fjallsins Stóra Hrúts og Langahryggs.

Þegar séð var að hraunáin stefndi á eystri varnargarðinn var gripið til þess í skyndi að fá jarðýtu til að ryðja upp neyðargarði í von um að stöðva hana. Sá garður hægði aðeins á hraunrennslinu en fljótlega flæddi hraunið yfir hann, að sögn Ólafs Þór Rafnssonar, byggingartæknifræðings hjá Verkís.

Hraunið átti þá greiða leið að eystri varnargarðinum, sem kominn var upp í fjögurra metra hæð. Þar sem óttast var að hraunið kæmist yfir garðinn var ákveðið að fara strax í að bæta ofan á hann eins og hálfs metra háum neyðarruðningi.

Hörn Hrafnsdóttir, verkfræðingur hjá Verkís, segir að þetta hafi verið mikill hasar frá miðjum degi og fram á nótt en unnið var að þessu fram yfir miðnætti. Önnur jarðýta var fengin á svæðið í gærkvöldi til að hjálpa til og eru þær núna tvær og ein grafa.
Í samtali við fréttastofu á tólfta tímanum sagði Hörn að hraunið væri núna komið upp að öllum eystri garðinum en væri ekki enn farið yfir hann. Hraun væri einnig að renna hægt að vestari garðinum. Ástandið virtist núna vera stöðugt en veður gæti skjótt skipast í lofti.