Ómar Ingi skoraði hvorki meira né minna en 13 mörk af mörkum Magdeburg er liðið lagði Essen 31-26. Níu mörk Ómars komu af vítalínunni en það þarf að nýta blessuð vítaköstin. Gísli Þorgeir Kristjánsson er enn frá vegna meiðsla og lék ekki með liðinu.
Magdeburg situr sem stendur í 4. sæti þýsku deildarinnar með 42 stig.
Bjarki Már var að venju markahæstur í liði Lemgo er liðið tapaði gegn Füchse Berlin. Bjarki skoraði sex mörk í leiknum sem Berlín vann 30-24. Sem fyrr er Lemgo um miðja deild en liðið situr í 11. sæti með 31 stig.
Alexander og liðsfélagar hans í Flensburg töpuðu óvænt stigum í toppbaráttunni en liðið gerði 26-26 jafntefli við Rhein-Neckar Löwen á heimavelli. Alexander var ekki meðal markaskorara Flensburg en Ýmir Örn Gíslason skoraði eitt marka Ljónanna ásamt því að láta til sín taka í vörn liðsins.
Flensburg er sem fyrr í 2. sæti deildarinnar, með 54 stig, á meðan Löwen er sæti neðar með 43 stig. Flensburg á tvo leiki til góða á Löwen og einn á Kiel sem trónir á toppnum með 57 stig.
Þá vann Melsungen, lið Guðmundar Guðmundssonar, tveggja marka sigur á Ludwigshafen á heimavelli. Lokatölur 25-23 Melsungen í vil en Arnar Freyr komst ekki á blað.