Lagabreytingarnar, sem eru þær umfangsmestu í fjóra áratugi, hafa verið fjórtán ár í vinnslu en Páfagarður greindi frá þeim í dag. Í hegningarlagahlut kirkjulaganna eru nú tekin af tvímæli um að fullorðið fólk geti verið fórnarlömb kynferðisofbeldis presta ef þeir misnota vald sitt yfir því.
Hægt verður að svipta presta hempunni en þeir nota ofbeldi, hótanir eða misbeita valdi sínu til þess að fá sínu fram kynferðislega gegn einstkalingum, hvort sem þeir eru börn eða fullorðnir. Fram að þessu hefur kaþólska kirkjan talið kynferðislegt samband prests við fullorðna manneskju synd en að fullorðinn einstaklingur geti aldurs síns vegna hafnað samþykki fyrir því.
Þá er það nú glæpur gegn kirkjulögum að prestar tæli til sín börn eða viðkvæma fullorðna einstaklinga til að þvinga þá til að taka þátt í kynferðislegu athæfi. AP-fréttastofan segir að þetta sé í fyrsta skipti sem kaþólska kirkjan geri þekkta aðferð kynferðisbrotamanna til að nálgast fórnarlömb sín ólöglega.
Breytingarnar eiga einnig að gera biskupum og öðrum kirkjuleiðtogum erfiðara fyrir að hylma yfir kynferðisbrot innan kirkjunnar eins og mörg dæmi eru um víða um heim. Nú verður hægt að sækja þá til saka sýni þeir af sér „saknæma vanrækslu“ eða tilkynni þeir ekki brot til kirkjuyfirvalda. Það verður þó ekki saknæmt að tilkynna brot ekki til lögreglu.
Konur sjálfkrafa bannfærðar reyni þær að fá vígslu
Af öðrum breytingum á kirkjulögunum má nefna að skerpt var á ákvæði sem bannar að konur séu vígðar til prests. Með breytingunum er bæði kona og sá sem reynir að vígja hana til prests sjálfkrafa bannfærð. Presturinn á jafnframt á hættu að vera sviptur hempunni, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Kate McElwee, framkvæmdastjóri Vígsluráðs kvenna, segir þessa breytingu kirkjunnar ekki koma á óvart en að hún sé sársaukafull áminning um „feðraveldisvél“ Páfagarðs og umfangsmiklar tilraunir hans til þess að undiroka konur.
Ný ákvæði um fjárglæpi er einnig að finna í kirkjulögunum en kaþólska kirkjan hefur gengið í gegnum nokkur fjármálahneyksli á undanförnum árum. Er nú fjallað í lögunum um fjárdrátt úr sjóðum kirkjunnar og vanrækslu í umsjón með fjármunum og eignum hennar.