Sport

Gefa Söru nýjan samning þrátt fyrir stóru meiðslin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það er enginn uppgjafartónn í Söru Sigmundsdóttur þrátt fyrir erfið meiðsli og styrktaraðilar hennar stökkva heldur ekki frá borði.
Það er enginn uppgjafartónn í Söru Sigmundsdóttur þrátt fyrir erfið meiðsli og styrktaraðilar hennar stökkva heldur ekki frá borði. Instagram/@sarasigmunds

Það vakti athygli þegar íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir skrifaði undir samning við Volkswagen í miðjum heimsfaraldri fyrir ári síðan en nú hefur hún landað nýjum samningi við þýska bílaframleiðandann.

Sara er ekki að keppa á heimsleikunum í ár en hefur haldið nafni sínu á lofti með því að gefa fylgjendum sínum að fylgjast vel með endurhæfingu sinni.

Sara sagði frá því að hún hafi gert nýjan samning við Volkswagen R og er þetta enn eitt dæmið um að styrktaraðilar Söru standa áfram þétt upp við bakið á henni þrátt fyrir að hún sé að glíma við mjög erfið meiðsli.

Sara sleit krossband nokkrum dögum áður en tímabilið hófst og það þýddi að allt 2021 tímabilið fauk út um gluggann.

„Það er með mikilli gleði og ánægju að ég tilkynni nú að ég hef skrifað undir nýjan samning við Volkswagen R og við ætlum að framlengja samstarf okkar um eitt ár,“ skrifaði Sara á Instagram síðu sína.

Sara hefur verið að senda út netþætti með aðstoðarfólki sínu þar sem hún leyfir fylgjendum sínum að vera fluga á vegg á meðan Sara vinnur sig til baka eftir jafn afdrifarík meiðsli og krossabandsslit eru. Með jákvæðnina og dugnaðinn að vopni ætlar hún að komast aftur í hóp þeirra bestu í sinni íþrótt.

„Þótt að síðustu tólf mánuðir hafi haft sínar hæðir og lægðir þá hef ég fengið að upplifa drauminn minn í gegnum bílinn sem ég fékk frá þeim,“ skrifaði Sara.

„Ég er svo stolt af því að fá tækifærið til að vera sendiherra þessara frábæra merkis og ég hlakka til bjartrar framtíðar með Volkswagen R,“ skrifaði Sara.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×