Skrifað var undir samstarfið laugardaginn 29. maí en það felur í sér að planta um 11.000 trjáplöntum næstu fimm árin.
„Markmiðið með samstarfinu er að rækta yndisskóg sem bindur kolefni, jafnar vatnsbúskap og eykur frjósemi jarðvegs, búa til skjól og síðast en ekki síst eykur gildi svæðisins til útivistar allan ársins hring,“ segir í tilkynningu um verkefnið.

Fyrsti gróðursetningardagurinn fór fram laugardaginn 29. maí þar sem starfsfólk 66°Norður og fjölskyldur tóku þátt. Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður og Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélagsins undirrituðu samninginn í Úlfljótsvatnskirkju.
66°Norður hefur kolefnisjafnað starfsemi sína árið 2019 og 2020 í samstarfi við Kolvið og Klappir og er samstarfið við Skógræktarfélag Íslands til viðbótar við það.

„Það voru mörg brosandi andlit sem gróðursettu trén í Yndisskógi. Markmiðið okkar hefur ávallt verið að framleiða fatnað í sátt við umhverfið. Þar sem við vinnum með umhverfisvæn efni og kolefnisjöfnum starfsemina meðal annars á þennan hátt þá getum við boðið viðskiptavinum okkar umhverfisvænar flíkur, “ segir Helgi Rúnar Óskarsson forstjóri 66°Norður. Hann segir að þetta sé mikilvægt fyrir félagið til þess að geta sinnt mótvægisaðgerðum í umhverfismálum á beinan hátt með starfsfólkinu.

„Við hjá Skógræktarfélagi íslands erum afar ánægð með samstarfið. Eigendur og starfsmenn 66°Norður hafa sýnt mikinn og skemmtilegan áhuga á þessu verkefni og ég er handviss um að þetta framlag verði landsmönnum til góða. Ræktun skógarins er unnin eftir ákveðnu skipulagi þannig að útkoman verður fjölbreyttur og fallegur yndisskógur. Það er mikilvægt og jafnframt einfalt fyrir fyrirtæki að kolefnisjafna starfsemi sína með gróðursetningu trjáa,“ segir Jónatan Garðarsson, formaður Skógræktarfélagsins.