Yair Lapid, leiðtogi miðjuflokksins Yesh Atid, hefur haft þrjár vikur til þess að tryggja ríkisstjórnarsamstarf og virðist hann á lokametrunum í samningaviðræðum við Natfali Bennett, formann þjóðernisflokkinn Yamina.
Frestur Lapids til ríkisstjórnarmyndunar rennur út á miðnætti að staðartíma, eða klukkan níu á íslenskum tíma, í kvöld. Talið er að Bennett verði næsti forsætisráðherra, takist þeim að komast að samkomulagi í kvöld.
Þó svo að flokkarnir tveir komist að samkomulagi og myndi nýja ríkisstjórn er ekki víst að hún fái að starfa sem slík. Likud flokkur Netanjahús hefur keppst við að reyna að sannfæra meðlimi annarra hægri flokka, sem óvíst er hvort styðji ríkisstjórnarsamstarfið, til að gera það ekki.
Til þess að taka til starfa þarf þingið að samþykkja ríkisstjórnina, eða að minnsta kosti meirihluti þeirra 120 þingmanna sem sitja á þinginu. Samþykki þingið ekki nýja ríkisstjórn mun þurfa að blása til fimmtu þingkosninganna á tveimur árum.