Fréttamaður braska ríkisútvarpsins, Jonny Dymond, sem sérhæfir sig í málefnum konungsfjölskyldunnar, greindi frá því að drottningin hefði ekki verið með í ráðum við ákvörðun hjónanna.
Hann hafði þetta eftir „góðum heimildarmanni innan hallarinnar“ og sagði hann hafa verið fastan á þessu atriði.
Þegar hjónin greindu frá nafninu litu flestir á það sem skref í átt að jákvæðari samskiptum milli hjónanna og konungsfjölskyldunnar en það hefur líklega ekki farið fram hjá mörgum að þau hafa verið heldur stirð síðustu tvö ár.
Svo virðist hins vegar sem þessi viðleitni hjónanna, og samkvæmt þeim drottningunni sjálfri, hafi farið öfugt ofan í einhverja innan konungsfjölskyldunnar ef marka má fréttir BBC.
Talsmaður Harry og Meghan heldur því staðfastlega fram að drottningin hafi verið spurð álits á nafninu áður en það var ákveðið. „Hertoginn ræddi við fjölskyldu sína áður en nafnið var tilkynnt. Raunar var amma hans [drottningin] sú fyrsta í fjölskyldunni sem hann hringdi í.“
Hann hefði aldrei ákveðið að gefa dóttur sinni nafnið ef drottningunni hefði ekki líkað hugmyndin.
Lögfræðingar hjónanna hafa sent út yfirlýsingu á breska miðla þar sem frétt BBC er sögð röng og ærumeiðandi.
Lísbet Díana Mountbatten-Windsor er ellefta barnabarnabarn drottningarinnar og er sú áttunda í röðinni um að erfa krúnuna. Hún er skírð Lísbet í höfuðið á drottningunni langömmu sinni og Díana í höfuðið á móður sinni, Díönu prinsessu.