Starfsmaðurinn vann á árunum 2010 til 2015 fyrir annað félag samhliða störfum sínum fyrir bankann, þvert á ráðningarsamning. Bankinn sagði starfsmanninum upp í tengslum við rannsókn lögreglu á meintum glæpum hans og bar því einnig við að hann teldist hafa brotið ráðningarsamninginn með því einu að starfa fyrir annað félag.
Einnig taldi bankinn starfsmanninn hafa notið óeðlilegra kjara í viðskiptum sínum við AFL sparisjóð, sem var í eigu bankans. Þannig taldi bankinn starfsmanninn ekki aðeins hafa farið á svig við samninginn með því að starfa fyrir annað félag, heldur að starfsmaðurinn hefði beinlínis gerst sekur um refsiverða háttsemi.
Starfsmaðurinn var ekki ákærður í tengslum við meinta refsiverða háttsemi á sínum tíma og málið var látið niður falla eftir handtöku og rannsókn.
Arion banki vildi að fyrirvaralaus uppsögnin yrði réttlætt með því að starfsmaðurinn hafi notið sérkjara hjá sparisjóðnum í störfum sínum fyrir annað félag. Dómurinn féllst ekki á að skýrt hafi verið að hann hafi notið þeirra kjara, þannig að þau sjónarmið voru ekki tekin gild. Því þurfti Arion banki að greiða uppsagnarfrestinn.
Héraðsdómur hafði áður sýknað Arion banka af kröfum starfsmannsins um launin. Landsréttur sneri því við eftir að starfsmaðurinn áfrýjaði málinu.