Jason kom Blikum í 2-0 á 23. mínútu. Tíu mínútum síðar lá hann eftir á vellinum. Vallarþulur á Kópavogsvelli óskaði eftir lækni og Jason var svo borinn af velli. Hann var í kjölfarið fluttur af Kópavogsvelli í sjúkrabíl.
„Ég átti bara erfitt með andardrátt og var illt í hausnum,“ sagði Jason í samtali við Vísi. „Sjúkraþjálfarinn kom til mín, hjálpaði mér í gegnum þetta og það er allt í góðu núna,“ bætti Jason við en hann var alltaf með meðvitund.
Jason fór í hjartamyndatöku í gær og niðurstöðurnar úr henni voru góðar. „Ég fór í myndatöku og það er allt í góðu með hjartað,“ sagði hann.
Mosfellingurinn fór heim til sín eftir skoðun á spítala í gær og fer í frekari skoðun á næstu dögum.
„Ég fékk hausverk og svima en get rosa lítið sagt hvað gerðist. Ég fer í fleiri rannsóknir en allt það sem ég fór í gær leit vel út. Ég á tíma hjá lækni á morgun,“ sagði Jason.
Viðstöddum og þeim sem fylgdust með leiknum var eðlilega brugðið þegar Jason lá á vellinum enda aðeins rúm vika síðan Daninn Christian Eriksen fékk hjartaáfall í leik gegn Finnum á EM.
„Ég náði ekki mikið að hugsa um það,“ sagði Jason aðspurður hvort atvikinu með Eriksen hefði skotið upp í kolli hans.
Breiðablik vann leikinn gegn FH, 4-0, en þetta var fjórði sigur liðsins í síðustu fimm leikjum.
„Þetta voru mikilvægir þrír punktar og við vonum það besta,“ sagði Jason sem hefur skorað fjögur mörk í Pepsi Max-deildinni í sumar.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.