Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að tólf þúsund skammtar séu til og að í ljós eigi eftir að koma hvort að þeir verði allir nýttir í dag.
Bólusetning hefst núna klukkan níu og stendur til þrjú, en eftir klukkan þrjú geta þau sem eiga eldra boð í Pfizer mætt á staðinn og fengið sprautu, það er á meðan birgðir endast. Þetta er síðasti dagurinn sem hægt er að fá fyrri skammt af Pfizer fyrir sumarfrí.
Ungmenni fædd 2005 hafa fengið boð um að mæta í dag, en athygli hefur verið vakin á að þau fá ekki SMS þar sem símar þeirra eru ekki skráðir. Þau geti hins vegar athugað á mínum síðum á heilsuvera.is klukkan hvað þau eigi boð í bólusetningu.
Einnig fá boð karlar fæddir 1980 og 1989 og konur fæddar 1987 og 1994.