Róbert Orri átti gott tímabil á síðustu leiktíð í treyju Breiðabliks sem og innkoma hans í U-21 árs landslið Íslands vakti athygli. Snemma sumars var ljóst að varnarmaðurinn ungi myndi að öllum líkindum halda út í atvinnumennsku er sumarglugginn hér á landi opnaði og hefur það nú verið staðfest.
.@robertorri11 est Montréalais.
— CF Montréal (@clubdefootmtl) June 27, 2021
FR >>> https://t.co/yrLHvjqtIr
EN >>> https://t.co/3GkF4zNseO#CFMTL pic.twitter.com/TP6OZQgxGn
Hinn 19 ára gamli Róbert Orri á að fylla skarð Luis Binks sem fór frá Montréal til Bologna en bæði félög eru í eigu Saputo Inc. og fór Róbert Orri til að mynda í læknisskoðun á Ítalíu.
„Við erum ánægðir með samninginn en þrátt fyrir ungan aldur hefur Róbert Orri töluverða reynslu frá Íslandi, Evrópudeildinni og með íslenska landsliðinu. Við bjóðum hann velkominn,“ sagði Oliver Renard, íþróttastjóri Montréal.
Þó Montréal sé í Kanada þá leikur félagið í MLS-deildinni þar sem það situr í 9. sæti Austurdeildarinnar.
Róbert Orri er örvfættur og getur leikið bæði í stöðu mið- og bakvarðar. Hann á að baki 58 leiki með Aftureldingu og Breiðablik sem og 28 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af fimm fyrir U-21 árs landsliðið.
