Mótmælandinn, sem var fimmtugur, réðst á lögreglumann á fimmtudag og stakk hann með hníf. Lögregla segir að maðurinn hafi í kjölfarið tekið eigið líf. Lögreglumaðurinn, sem er 28 ára gamall, hlaut alvarlega áverka í árásinn en árásarmanninum tókst að stinga hann í lungað. Lögreglumaðurinn liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi að sögn staðarmiðla.
Yfirvöld hafa gefið út að árásarmaðurinn, sem fjölmiðlar hafa nafngreint sem Leung Kin-fai, hafi einsamall komið að árásinni. Litið sé á hana sem hryðjuverk og að Leung hafi verið pólitískur öfgamaður. Yfirvöld hafa kennt andófsmönnum Kína um pólitískar skoðanir Leungs.
Árásin átti sér stað daginn sem 24 ár voru liðin frá því að Bretar afhentu Kínverjum Hong Kong, eftir tæplega 100 ára yfirráð. Þúsundir lögreglumanna höfðu verið sendir á götur út til að koma í veg fyrir að fjöldamótmæli brytust út.
Á fimmtudag var einnig liðið ár frá því að umdeild öryggislög voru tekin í gildi í Hong Kong. Lögin eru sögð til þess gerð að brjóta á bak aftur lýðræðishreyfingu Hong Kong en samkvæmt lögunum má ekki tala gegn kínverska ríkinu eða grafa undan því á nokkurn hátt. Lögunum hefur verið lýst sem mikilli forræðishyggju og í anda einræðisstjórnar og stjórnvöld hafa verið sökuð um að hafa notað þau í þeim tilgangi að brjóta á bak aftur lýðræðishreyfingu Hong Kong sem fór mikinn sumarið 2019.