Við upphaf vaktarinnar var tilkynnt um að bifreið hefði verið ekið á ljósastaur í miðbænum og að bifreiðinni hefði síðan verið ekið á brott. Lögreglumenn náðu í skottið á ökumanninum skömmu síðar og reyndist hann í annarlegu ástandi.
Gaf hann þá skýringu að hann hefði ekið á ljósastaurinn þar sem hann var upptekinn í símanum. Viðkomandi var handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Um kl. 1 í nótt urðu lögreglumenn vitni að því þegar ökumaður ók á umferðarskilti. Þegar þeir hugðust ræða við hann reyndi hann að komast undan og ók við það á kyrrstæða bifreið. Lögregla veitti ökumanninum eftirför um póstnúmer 104, 103 og 200 og var handtekinn í kjölfarið. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Í umdæminu Hafnarfjörður, Garðabær og Álftanes var tilkynnt um slagsmál við verslun og þjófnað úr matvöruverslun. Þá var einstaklingur í annarlegu ástandi handtekinn fyrir hótanir í umdæminu sem nær yfir Kópavog og Breiðholt og vistaður í fangaklefa.
Annars staðar hafði lögregla afskipti af fullorðnum manni sem var að spreyja málningu á strætóbiðstöð. Var honum tilkynnt að hann yrði kærður fyrir eignaspjöll.