Þrjú sett voru leikin í úrslitaviðureigninni í dag, þar sem Barty vann fyrsta settið 6-3 áður en Pliskova svaraði með naumum 7-6 sigri í öðru settinu. Allt var undir í því þriðja þar sem Barty vann á ný 6-3 og tryggði sér þar með titilinn.
Úrslitaviðureignin hefur ekki farið í þrjú sett síðan 2012 þegar Serena Williams lagði Agnieszku Radwańska frá Póllandi 6-1, 5-7 og 6-2.
Barty er á toppi heimslistans og var að vinna Wimbeldon-mótið í fyrsta sinn. Þetta var hennar annar sigur á risamóti, en sá fyrri var á Opna franska meistaramótinu árið 2019. Hún er þá fyrsta ástralska konan til að fagna sigri á mótinu frá því að Evonne Goolagong Cawley afrekaði það árið 1980.
Í tvíliðaleik kvenna fögnuðu Hsieh Su-wei og Elise Mertens sigri þar sem þær lögðu Veroniku Kudermetova og Elenu Vesnina að velli.
Úrslitin í karlaflokki fara fram á morgun þar sem Serbinn Novak Djokovic getur jafnað met Rogers Federer og Spánverjans Rafaels Nadal yfir 20 sigra á risamóti. Hans bíður Ítalinn Matteo Berrettini.