Fjölskyldan hefur gengið í gegn um mikið síðasta árið en síðasta sumar svipti Gísli Rúnar Jónsson, stjúpfaðir Evu Daggar, sig lífi. Hún segir að andlátið hafi reynst syni hennar erfitt og að hann hafi fallið í neyslu nokkrum mánuðum síðar eftir fimm ára edrúmennsku.
Vildu pening frá Bjarna
Bjarni Ákason, fjárfestir og athafnamaður, rekur samskiptin sem hann átti við stjúpson sinn í gær í samtali við Vísi:
„Hann byrjaði að hringja í mig þarna upp úr hádegi í gær með einhverjum félaga sínum,“ segir Bjarni.
Stjúpsonurinn hafi hringt og farið að bulla upp sögur um að Bjarni skuldaði sér pening.
„Þetta snerist allt um að sækja af mér einhvern pening með einhverju bulli. Ég bara skellti á hann, nenni ekki að hlusta á svona vitleysu,“ segir Bjarni. „Þá fer hann að hringja í móður sína og þetta stigmagnast með deginum; hann hringir og hringir og fer að senda mér skilaboð með hótunum.“
Verst að börnin hafi þurft að horfa upp á þetta
Í eftirmiðdaginn hafi þeir félagar síðan mættir heim til Evu og Bjarna.
Bjarni var þar fyrir utan húsið með börnum sínum og Evu. „Og þeir bara ganga í skrokk á mér. Þetta er í fyrsta skipti sem ég lendi í svona. Það sem mann svíður mest er að börn hafi þurft að horfa upp á þetta,“ segir Bjarni.

Hjónin hafa kært líkamsárásina til lögreglu og segja að mennirnir hafi verið handteknir í gær. Þeim verði þó sleppt úr haldi í dag.
„Maður kærir og kærir en svo er þessum mönnum bara hleypt aftur í umferð. Þeir þurfa auðvitað næsta skammt og maður veit ekki hvað þeir gera þá. Dagurinn hjá þeim í þessari neyslu kostar einhvern 150 þúsund kall og þeir leita bara leiði til að fjármagna hann. Þetta í gær var ein leiðin,“ segir Bjarni.
Hjónin hafa margsinnis áður kært son Evu fyrir þjófnað á heimili þeirra. Í gær gengu þau svo skrefinu lengra og fékk Eva nálgunarbann á son sinn.
„Það er hræðilegt að þurfa að fá nálgunarbann á son sinn,“ segir Eva við Vísi. „En hann er bara ekki sonur minn núna. Ekki á meðan hann er í þessari neyslu. Þá þekkir maður ekki manninn.“
Fréttin hefur verið uppfærð.