Flugvél Dinamo lenti á Keflavíkurflugvelli fyrir hádegi en liðið leikur seinni leik sinn við Val á Hlíðarenda annað kvöld. Dinamo komst í 3-0 í fyrri leiknum en Kristinn Freyr Sigurðsson minnkaði muninn úr víti á 88. mínútu og Andri Adolphsson sá til þess að Dinamo er aðeins 3-2 yfir fyrir leikinn á morgun.
„Það var augljós gæðamunur á liðunum á Maksimir-vellinum en enn einu sinni sýndi sig að hægt er að bæta upp fyrir gæðamun með baráttu, ástríðu og því að gefast aldrei upp,“ sagði Krznar við 24 Sata.
„Við vitum að við náðum ekki að fara auðveldu leiðina og núna verðum við að fara þá erfiðari. Þetta lið hefur hins vegar alltaf svarað vel fyrir sig þegar áskorunin er erfið,“ sagði Krznar.
Dinamo hefur nú endurheimt Mario Gavranovic, sem skoraði jöfnunarmark Sviss gegn Frakklandi á EM, og króatísku landsliðsmennina Bruno Petkovic, Mislav Orsic og Luka Ivanusec. Hins vegar fékk Dominik Livakovic, landsliðsmarkvörður Króata, lengra sumarfrí.
Krznar segir sína menn verða fljóta að aðlagast aðstæðum á Íslandi en 24 Sata lýsir veðrinu á Íslandi sem „vetrarveðri“ og bendir á að Valur spili heimaleiki sína á gervigrasi. Þjálfarinn sagði ekkert óþægilegt við aðstæðurnar á Hlíðarenda og að Dinamo ætlaði sér að taka strax stjórnina í leiknum.
Eftir leik munu Króatarnir koma sér fljótt af landi brott í stað þess að gista á Íslandi yfir nóttina, en leikurinn hefst klukkan 20 að íslenskum tíma.
„Sólin sest á meðan að leikurinn er í gangi en rís strax upp aftur því við erum við Norðurheimskautið. Leikmennirnir myndu örugglega bara vakna um nóttina svo við töldum skynsamlegra að þeir myndu þá vakna í flugvélinni,“ sagði Krznar.
Leikur Vals og Dinamo Zagreb er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport annað kvöld klukkan 20. Útivallamarkareglan gildir ekki lengur í keppnum á vegum UEFA svo framlengt verður ef að Valur vinnur eins marks sigur á morgun.