Mykonos er einn vinsælasti ferðamannastaður Grikklands, sérstaklega fyrir þá efnameiru, og halda meira en milljón ferðamenn til eyjunnar hvert sumar, þar á meðal Hollywood-stjörnur, fyrirsætur og heimsfrægir íþróttamenn. Fréttastofa Reuters greinir frá.
Fjöldi fólks á eyjunni greindist smitaður af kórónuveirunni í vikunni og ákváðu yfirvöld því að grípa til óhefðbundinna aðferða til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu veirunnar. Tónlist er því bönnuð á almannafæri allan sólarhringinn á eyjunni og þeir sem þurfa að ferðast á milli staða, annað hvort vegna vinnu eða heilsu sinnar vegna, mega aðeins ferðast á milli klukkan eitt og sex eftir miðnætti. Reglurnar gilda til 26. júlí næstkomandi.
Ferðamannaiðnaðurinn telur um tuttugu prósent gríska hagkerfisins og hafa yfirvöld lýst því yfir að landið stóli á stríðan straum ferðamanna til að halda jafnvægi í hagkerfinu. Efnahagur landsins tók mikið högg á síðasta ári þegar nánast engir ferðamenn komu til landsins.
Fjöldi smita hefur farið vaxandi í Grikklandi undanfarnar vikur og hafa grísk yfirvöld gripið til þess ráðs að skylda heilbrigðisstarfsmenn til að mæta í bólusetningu. Þá hafa ýmsar aðrar takmarkanir tekið gildi, þar á meðal mega aðeins bólusettir fara á veitingastaði og skemmtistaði.