Frá þessu er greint í Berlingske. Westergaard lætur eftir sig eiginkonu, fimm börn, tíu barnabörn og eitt barnabarnabarn.
Síðustu ár ævi sinnar var Westergaard með lífverði í vinnu hjá sér, eftir að þekktasta teikning hans af Múhameð spámanni birtist í Jótlandspóstinum. Teikningin, sem sýndi Múhameð með sprengju í túrban sínum, vakti mikla reiði hjá mörgum múslimum víða um heim.
Westergaard bárust margar hótanir eftir að myndirnar birtust. Á nýársdag árið 2010 braust sómalskur maður inn á heimili hans í Viby með öxi, með það fyrir augum að drepa hann. Westergaard komst undan árásarmanninum með því að læsa sig inni á baðherbergi, sem hafði verið sérstaklega útbúið sem öryggisherbergi fyrir aðstæður sem þessar.