Þá segir hann í samtali við fréttastofu að tveir af þeim þremur sem höfðu verið lagðir inn áður séu á batavegi.
123 greindust smitaðir af Covid-19 í gær en það er mesti fjöldinn sem greinst hefur á einum degi frá því faraldurinn hófst. Af hinum smituðu voru 84 fullbólusettir, einn hálfbólusettur og 36 óbólusettir.
Sjá einnig: Aldrei fleiri greinst á einum degi
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði í viðtali við fréttastofu í dag að ef alvarleg veikindi reynist mjög fátíð vegna bólusetninga, sem virðist raunin víða um heim, vildi hann draga úr sóttvarnaraðgerðum á næstu vikum.
„Ég ætla ekki að fullyrða neitt um framtíðina en það sem mér finnst langlíklegast er að hlutirnir færist smám saman aftur í eðlilegt horf,“ sagði Bjarni.
Sjá einnig: Vill „mikið frelsi innanlands“ ef alvarleg veikindi reynast mjög fátíð
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sló á svipaða strengi í dag.
„Ef þeir sem eru bólusettir lasnast mjög lítið, hljótum við að miða okkar aðgerðir við það. Ef það er munur á þeim eldri og þeim sem eru með undirliggjandi sjúkdóm, höldum við áfram að vera varkár í umgengni við þessa hópa, en það er mjög ólíklegt að það sé rökrétt að grípa til sams konar aðgerða eins og við gripum til þegar allir voru veikir fyrir þessari veiru og enginn bólusettur,“ sagði Kári.