Niðurstöður rannsóknar á vegum Letitiu James, dómsmálaráðherra New York, voru kynntar í dag, þar á meðal að Cuomo ríkisstjóri hafi áreitt fjölda kvenna og brotið þannig alríkislög og lög New York-ríkis. Hann liggur undir miklum þrýstingi um að segja af sér.
Á blaðamannafundi eftir að niðurstöðurnar voru kynntar lét Cuomo engan bilbug á sér finna.
„Ég vil að þið heyrið það beint frá mér að ég snerti aldrei neinn á óviðeigandi hátt eða hafði uppi óviðeigandi kynferðislega tilburði. Ég er 63 ára gamall. Ég hef lifað öll mín fullorðinsár í sviðsljósinu. Þetta er ekki sá sem ég er og þetta er ekki sá sem ég hef verið nokkru sinni,“ fullyrti Cuomo.
Cuomo er sakaður um að hafa þuklað á ellefu konum, kysst þær og faðmað gegn vilja þeirra auk þess að hafa uppi óviðeigandi ummæli. Skrifstofa ríkisstjórans hafi verið „eitraður vinnustaður“ þar sem áreitni var látin líðast.
Reyndi Cuomo að vefengja hlutleysi lögfræðinganna sem rannsökuðu ásakanirnar á hendur honum fyrir dómsmálaráðherrann. Einn þeirra átti meðal annars þátt í rannsókn alríkissaksóknara á meintri spillingu Cuomo og bandamanna hans. Sú rannsókn leiddi meðal annars til þess að náinn vinur og ráðgjafi Cuomo var dæmdur í fangelsi, að sögn AP-fréttastofunnar.
„Staðreyndirnar eru allt aðrar en þær sem hafa verið kynntar,“ sagði Cuomo sem afsakaði háttsemi sína með því að þannig sýndi hann öðrum alúð. Birti hann myndband þar sem hann sást faðma og kyssa karla og konur við ýmis tækifæri, að sögn Reuters-fréttastofunnar.