Þær frönsku höfðu unnið lið Svíþjóðar í undanúrslitum á meðan Rússland hafði betur gegn Noregi til að tryggja sæti sitt í úrslitum. Noregur vann öruggan sigur á þeim sænsku í leik um bronsmedalíuna í nótt.
Í úrslitaleiknum voru Frakkar ákveðnari aðilinn og voru jafnan með tveggja til þriggja marka forystu framan af fyrri hálfleiks. Rússland komst 7-6 yfir snemma í hálfleiknum, en það var í eina skiptið sem þær rússnesku komust yfir í hálfleiknum, fyrir utan í stöðunni 3-1 snemma leiks. Frakkland var ávallt skrefinu á undan og staðan í hálfleik 15-13 fyrir Frakkland.
Þær frönsku skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiks til að komast 16-13 yfir en Rússland svaraði með þremur mörkum í röð til að jafna 16-16. Þá skildu hins vegar leiðir. Frakkland skoraði sex mörk og komst 22-16 yfir og þær frönsku litu ekki um öxl í kjölfarið.
Þær rússnesku sáu ekki til sólar eftir það og vann Frakkland 30-25 sigur. Frakkland er því Ólympíumeistari kvenna í handbolta í fyrsta sinn.
Pauletta Foppa og Allison Pineau voru markahæstar í liði Frakka með sjö mörk hvor en hjá Rússum var Polina Vedekhina markahæst, einnig með sjö mörk.
Liðið stígur í fótspor karlaliðs landsins sem vann Ólympíugull í gær eftir sigur á Dönum í úrslitum.
Frakkland hefndi þá fyrir tap sitt í úrslitum leikanna árið 2016, en þá lagði rússneska liðið þær frönsku.