Ísland er nú statt í Svartfjallalandi þar sem það tekur þátt í forkeppni undankeppni HM 2023. Liðið tapaði heldur stórt gegn heimamönnum og má ekki við öðru tapi í dag.
Liðið verður einfaldlega að ná í sigur til að eiga möguleika á að komast í undankeppnina. Takist það ekki gæti það farið svo að íslenska landsliðið spili ekki „alvöru“ landsleik í næstum tvö ár.
„Við verðum að vinna á morgun. Þess vegna þurftum við að spara orku leikmanna (gegn Svartfjallalandi) og passa okkur að keyra menn ekki út,“ sagði Pedersen í viðtali við Karfan.is að leik loknum.
Pedersen sagði strax eftir leik að Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður KR, myndi koma inn gegn Dönum því hann ætti að henta vel gegn danska liðinu.
Ásamt Þóri Guðmundi þá kemur Ragnar Örn Bragason einnig inn í leikmannahóp liðsins. Hilmar Smári Henningsson og Davíð Arnar Ágústsson hvíla hins vegar í dag.
Leikur Íslands og Danmerkur hefst klukkan 18.00 og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.