Innlent

Héraðs­sak­sóknari missir reynslu­bolta í dómara­sæti

Atli Ísleifsson skrifar
Björn Þorvaldsson hefur verið með mörg af stærstu málum héraðssaksóknara á sinni könnu undanfarin ár.
Björn Þorvaldsson hefur verið með mörg af stærstu málum héraðssaksóknara á sinni könnu undanfarin ár.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað Björn Þorvaldsson saksóknara í embætti dómara sem mun hafa starfsstöð við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann mun sinnastörfum við alla héraðsdómstólana eftir ákvörðun dómstólasýslunnar, frá 1. september 2021.

Frá þessu segir í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu. Þar segir að Björn hafi lokið embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1993 og framhaldsnámi í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi árið 2002. 

„Hann hefur í tæplega tvo áratugi fengist við rannsókn, ákvörðun um saksókn og flutning sakamála hjá embættum ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra og sérstaks saksóknara. 

Frá ársbyrjun 2016 hefur hann starfað sem saksóknari og sviðsstjóri ákærusviðs efnahags- og skattalagabrota við embætti héraðssaksóknara. Áður en Björn varð saksóknari starfaði hann í nokkur ár sem fulltrúi sýslumanns og um tveggja ára skeið á nefndasviði Alþingis. 

Af öðrum störfum má nefna að Björn hefur setið í sérfræðingahópi Evrópuráðsins um varnir gegn spillingu (GRECO) og jafnframt tekið þátt í margskonar alþjóðasamvinnu sem fulltrúi Íslands. Að auki hefur hann sinnt kennslu í lögfræði við íslenska háskóla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×