Vísir hefur eftir ísraelskum miðlum að verið sé að undirbúa sérstakt sjúkraflug til að flytja hópinn aftur heim til Ísraels. Í hádegisfréttum förum við ítarlega yfir stöðu kórónuveirufaraldursins hér á landi en í gær greindust heldur færri smitaðir innanlands en daglega undanfarnar vikur.
Við greinum einnig frá ringulreið á flugvellinum í Kabúl höfuðborg Afganistans eftir að Talibanar náðu völdum yfir borginni og þar með öllu landinu í gær. Þúsundir manna reyna að komast í flug með bandarískum flugvélum og talið að fimm manns hafi látist í þeim átökum.
Þær konur sem beðið hafa lengst eftir svörum vegna leghálsskimana mega búast við niðurstöðum í þessari viku eða þeirri næstu, að sögn framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.
Þetta og margt fleira í hádegisfréttum Bylgjunnar sem einnig eru sendar út beint hér á Vísi.