Skoðun

Á næsta kjörtímabili

Ágúst Bjarni Garðarsson skrifar

Á engu hafði ég eins mikla óbeit þegar ég æfði íþróttir á yngri árum og útihlaupum. Tilbreytingalaus og langdregin og enginn fótbolti. Virtust allt að því tilgangslaus. Því var það einn góðan veðurdag að ég mannaði mig upp í að ræða þetta mál við þjálfarann. Fá einhverja umræðu um þessa afstöðu mína og botn í málið. Svarið sem barnið fékk var snjallt og þurrkaði út allar efasemdir mínar á augabragði; „Ágúst, ef þú getur bent mér á smið sem byggir hús án þess að byrja á grunninum, þá máttu endilega biðja hann um að hafa samband við mig.“ Þetta virkaði mjög hvetjandi á mig og steinlá hjá þjálfaranum, efasemdir mínar þurrkuðust út í einni svipan. Sýn þjálfarans var rökrétt og eðlileg, sá sem hefur úthaldið í hlaupin byggir tæknina ofan á það, en sá sem ekki getur hlaupið á kannski ekki mikið erindi í boltann.

En úr æskuminningum yfir í raunveruleikann. Verkefni stjórnvalda á næsta kjörtímabili verður einmitt þetta, svolítið langhlaup til að byrja með. Við þurfum að halda áfram að treysta þá innviði sem markvisst hafa verið byggðir upp á kjörtímabilinu; og má þar helst nefna stórátak í samgöngumálum vítt og breitt um landið. Á öðrum sviðum þarf að lyfta grettistaki, líkt og í heilbrigðismálum. Það þarf að búa atvinnulífinu og fyrirtækjum slíkt umhverfi að þau geti tekist á við krefjandi verkefni. Það þarf að auka verðmætasköpun og fyrirtækin þurfa að geta fjárfest í tækjum og tólum til þess að standast samkeppni og ekki síður til að ráða fólk í vinnu. Saman mun þetta auka verðmætasköpun í þjóðfélaginu, öllum til góðs.

Einstaka menn telja að þetta verði best gert með því að veðja á þjóðfélagsgerð sem víða um heim er hruninn með ómældum hörmungum fyrir þegnana. Það skal fullyrt að boðberar hennar eru á villigötum. Framleiðslutæki þjóðfélaga verða ekki þjóðnýtt, þjóðinni til heilla, heldur yrði það þvert á móti okkar sameiginlega hörmung. Öflugt atvinnulíf er forsenda velferðar; góðrar heilbrigðisþjónustu, traustra menntastofnanna og blómlegs menningarlífs. Það kann vissulega að vera að einhverjir vilji nú prófa úrelt og mannskemmandi fyrirkomulag, svona beint ofan í COVID-19. En frá mínum bæjardyrum séð, held ég að sú aðferðafærði sé fullreynd og alger óþarfi að taka þá áhættu. Við þurfum að halda áfram án öfga til hægri eða vinstri og með skynsemina á lofti. Framtíðin ræðst á miðjunni.

Höfundur er formaður bæjarráðs í Hafnarfirði og situr í 2. sæti á lista Framsóknar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×