Þegar Bandaríkjaher vill virkilega sýna mátt sinn, þá sendir hann torséðu B-2 sprengjuþotuna á vettvang. Mikla athygli vakti fyrir tveimur árum þegar þota þessarar tegundar lenti í fyrsta sinn í Keflavík. Í gærkvöldi var ekki bara ein á ferðinni heldur þrjár, sem sjá mátti í fréttum Stöðvar 2 á myndum Víkurfrétta af lendingunni.

Þær komu hingað til lands frá Bandaríkjunum og munu hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli næstu daga vegna æfinga, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar. Um 180 liðsmenn bandaríska flughersins fylgja sprengjuþotunum.
B-2 er talin eitthvert skæðasta vopn sem til er en óvenjulegt útlit þotunnar gerir það að verkum að hún sést illa á ratsjám. Þá getur hún borið allt að sextán kjarnorkusprengjur.
Þessi fljúgandi vængur er jafnframt dýrasta flugvél sögunnar. Þróun og smíði hennar kostaði 260 milljarða króna á hvert eintak en aðeins tuttugu eru til í heiminum. Svo dýr er hún í rekstri að hver flugtími reiknast á 17 milljónir króna.

Fyrir eru í Keflavík um 170 liðsmenn bandaríska sjóhersins sem fylgja kafbátaleitarvélum og einnig 130 liðsmenn pólska flughersins, sem eru í loftrýmisgæslu með fjórar F-16 orrustuþotur. Þannig eru alls um 480 erlendir hermenn staðsettir í Keflavík þessa dagana en á myndum bandaríska flughersins, sem John E. Hillier tók, sjást einnig tvær Galaxy C-5, stærstu herflutningaþotur heims.
Landhelgisgæslan segir að með æfingunum gefist bandarísku sprengjuflugsveitinni tækifæri til að kynnast staðháttum á Norður-Atlantshafi, þar með talið hér á landi, og æfa með öðrum þjóðum Atlantshafsbandalagsins.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: