Sport

Fraser-Pryce hljóp á þriðja besta tíma sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Shelly-Ann Fraser-Pryce er þriðja fljótasta kona sögunnar.
Shelly-Ann Fraser-Pryce er þriðja fljótasta kona sögunnar. Marco Mantovani/Getty Images

Jamaíska spretthlaupakonan Shelly-Ann Fraser-Pryce hljóp í gær hundrað metra spretthlaup á þriðja besta tíma sögunnar á Demantamótaröðinni í frjálsum íþróttum þegar hún kom í mark á 10,60 sekúndum.

Landa hennar, Elaine Thompson-Herah, varð önnur á 10,64 sekúndum, en í seinustu viku setti hún næst besta tíma sögunnar þegar hún hljóm metrana hundrað á 10,54 sekúndum.

Heimsmet hinnar bandarísku Florence Griffith-Joyner, eða Flo-Jo eins og hún er oftast kölluð, er 10,49 sekúndur, en það hefur staðið frá árinu 1988.

Þrír af sex bestu tímum sögunnar hafa komið á þessu ári og því hlýtur fólk að spyrja sig hvort að 33 ára gamalt met Flo-Jo sé í hættu.

Hin 34 ára Fraser-Pryce segir að hún eigi nóg inni og að hún stefni á að bæta tímann sinn enn frekar.

„Hvort sem þið trúið því eða ekki, þá á ég enn eftir að hlaupa mitt besta hlaup,“ sagði Fraser-Pryce. „Ég veit að ég á meira inni.“

„Ég er enn að vinna í því að fullkomna hlaupatæknina mína. Þið eigið eftir að sjá meira frá mér á þessu tímabili. Markmiðið mitt er að komast niður fyrir 10,60.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×