Fótbolti

Xhaka með veiruna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Granit Xhaka er fyrirliði Svisslendinga.
Granit Xhaka er fyrirliði Svisslendinga. VÍSIR/GETTY

Granit Xhaka, miðvallar leikmaður Arsenal og svissneska landsliðsins, greindist með Covid-19 í gær, miðvikudag.

Það á ekki af Arsenal að ganga þessa dagana. Liðið er án stiga í ensku úrvalsdeildinni og raunar enn eftir að skora mark. Meira að segja nú, þegar landsleikjahlé er í gangi, fær liðið slæm tíðindi.

Hinn 28 ára gamli Granit Xhaka nældi sér í kórónuveiruna og var því ekki í leikmannahóp Sviss sem mætti Grikklandi í vináttulandsleik í gær. Í frétt Sky Sports um málið segir að óvíst sé hvort Xhaka sé bólusettur eða ekki en samkvæmd heimildum The Guardian ákvað Xhaka að sleppa því að láta bólusetja sig.

Leikmaðurinn vaknaði með einkenni í gærmorgun og var sendur í einangrun um leið sem og einn úr starfsliði svissneska landsliðsins.

Xhaka hefði alltaf misst af næsta leik í ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa fengið rautt spjald í 0-5 tapi Arsenal gegn Manchester City. Miðjumaðurinn verður því hvergi sjáanlegur þegar Arsneal mætir Norwich City en hvort hann verði fyrir leikinn gegn Burnley þann 18. september mun svo einfaldlega koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×