Handbolti

Alfreð tjáir sig í fyrsta sinn um fráfall eiginkonu sinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alfreð Gíslason kom Þýskalandi í átta liða úrslit á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Alfreð Gíslason kom Þýskalandi í átta liða úrslit á Ólympíuleikunum í Tókýó. getty/Dean Mouhtaropoulos

Alfreð Gíslason ætlaði að hætta sem þjálfari þýska karlalandsliðsins í handbolta þegar eiginkona hans, Kara Guðrún Melstað, greindist með krabbamein í byrjun maí en hún taldi honum hughvarf. Kara lést þann 31. maí.

Alfreð tjáði sig í fyrsta sinn um fráfall Köru í viðtali við Bild. Þar segir hann að síðustu mánuðir hafi verið afar erfiðir og hann hafi verið nálægt því að hætta sem landsliðsþjálfari.

„Það var hræðilegt hversu hratt allt gerðist,“ sagði Alfreð. „Ég held að það hafi verið 3. maí, eftir leikinn gegn Eistlandi, sem við fórum til læknisins. Þá kom greiningin sem breytti öllu. Krabbamein var komið aftur í öllu sínu veldi. Þetta var heilaæxli, mjög sjaldgæft og illkynja.“

Eftir þetta ákvað Alfreð að hætta sem landsliðsþjálfari Þýskalands. Kara vildi hins vegar ekki heyra á það minnst og hvatti hann til að halda áfram.

„Fyrstu viðbrögð voru að hætta og við myndum fara til Íslands og eyða síðustu mánuðunum þar. En Kara sagði nei. Það var eins og hana hafi grunað að hún myndi kveðja fyrr. Ég hélt við ættum allavega sex mánuði eftir saman,“ sagði Alfreð.

„Ég var mjög þakklátur þýska handknattleikssambandinu fyrir að gefa mér frið í maí. Kara var mjög reið við mig þegar ég sagðist ætla að hætta. Hún vissi hversu mikilvægur handboltinn er fyrir mig,“ sagði Alfreð en þau Kara höfðu verið saman frá því voru sextán ára.

Alfreð tók við þýska landsliðinu 6. febrúar 2020. Hann hefur stýrt því á tveimur stórmótum, HM og Ólympíuleikunum á þessu ári.

Minningarathöfn verður um Köru í Akureyrarkirkju klukkan 13:00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×