Fordæmalaus samdráttur var í losun á ýmsum mengandi efnum eins og brennisteinsdíoxíði, nituroxíði, kolmónoxíði og ósoni þegar sóttvarnaaðgerðir takmörkuðu verulega bílaumferð og framleiðslu í heiminum.
Í nýrri skýrslu Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) kemur fram að styrkur nituroxíðs dróst saman um hátt í 70% að meðaltali í heiminum og svonefndt PM2,5 svifryk um allt að 40% borið saman við tímabilið 2015 til 2019. Rannsóknin byggði á mælingum frá 540 mælistöðvum í og við 63 borgir í 25 löndum í öllum heimsálfum.
Áætlað er að loftmengun valdi allt að 4,5 milljónum ótímabærum dauðsföllum á hverju ári, fyrrst og fremst svifryksmengun. Fjöldinn hefur nærri því tvöfaldast á undanförnum þrjátíu árum.
Minna svifryk en meira óson
Samdráttur varð þó ekki alls staðar og ekki í öllum mengandi efnum. Þannig var styrkur ósons nær óbreyttur eða jókst jafnvel aðeins sums staðar. Í Austur-Asíu og Suður-Ameríku jókst styrkur þess um fjórðung.
Þó að ósónlagið í efri lögum lofthjúpsins verji menn og lífríki fyrir skaðlegum útfjólubláum geilsum sólar er efnið heilsuspillandi þegar menn anda því að sér á jörðu niðri. Ósón við yfirborð jarðar myndast við samspil sólargeisla, hita og útblásturs frá bílum.
Styrkur brennisteinsmengunar var allt frá 25 til 60% lægri í fyrra en hann var fimm árin fyrir faraldurinn alls staðar í heiminum. Einnig dró úr styrk kolmónoxíðs.
„Covid-19 reyndist vera óvænt tilraun í loftgæðum og það leiddi til tímabundinnar og staðbundinnar bætingar. Heimsfaraldur kemur hins vegar ekki í staðinn fyrir viðvarandi og kerfisbundnar aðgerðir til að taka á þáttum sem hafa áhrif á lýðfræðilegar og loftlagsbreytingar og gæta þannig bæði heilsu fólks og plánetunnar,“ segir Petteri Taalas, forstjóri WMO um skýrsluna.
Loftmengun er yfirleitt stað- og tímabundin. Oksana Tarasova, forstöðumaður loft- og umhverfisrannsókna WMO, segir að því hafi sóttvarnaaðgerðir aðeins skammtímaáhrif á styrk loftmengunar.
„Um leið og bílarnir fara aftur út á göturnar versnar ástandið aftur,“ segir hún við AP-fréttastofuna.

Reykur frá gróðureldum olli kólnun á suðurhveli
Fleiri þættir höfðu áhrif á loftgæði í fyrra en beinar athafnir manna. Miklir gróðureldar í Ástralíu, ollu þannig óvenjuháum styrk PM2,5 svifryks í janúar í fyrra og desember árið 2019. Reykurinn frá eldunum var svo mikill að hann olli tímabundinn kólnun á suðurhveli jarðar líkt og aska frá eldgosum getur gert með því að endurvarpa sólargeislum út í geim.
Kröftugir gróðureldar í Síberíu og vestanverðum Bandaríkjunum losuðu einnig mikið magn kolefnis út í andrúmsloftið. Mökkurinn frá eldunum var greinilegur frá geiminum séð. Óvenjulítið var aftur á móti um gróðurelda í Kanada og Alaska á sama tíma.
Áður hefur komið fram að fordæmalaus samdráttur varð í losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum vegna heimsfaraldursins í fyrra. Ólíkt loftmenguninni ræðst hnattræn hlýnun af uppsafnaðri losun manna frá upphafi iðnbyltingarinnar. Jafnvel þó að losunin hafi dregist saman í faraldrinum bætti mannkynið tugum milljarða tonna af koltvísýringi út í andrúmsloftið.