Bush, sem var forseti árið 2001, kallaði eftir því að Bandaríkjamenn tækju á þessari ógn sem væri að myndast innan landamæra Bandaríkjanna.
Þetta sagði Bush í ræðu í Pennsylvaínu í gær þar sem verið var að minnast þess að tuttugu ár voru liðin frá árásunum. Ein flugvél sem hryðjuverkamenn rændu brotlenti þar eftir að farþegar flugvélarinnar reyndu að yfirbuga hryðjuverkamennina. Talið er að til hafi staðið að fljúga henni á þinghús Bandaríkjanna eða Hvíta húsið.
Börn sama illa hugarfars
Í ræðunni sagði hann heimaræktaða og erlenda öfgamenn eiga lítið sameiginlegt, menningarlega séð. Þeir væru þó sameinaðir gegn fjölhyggju, í vanvirðingu þeirra til lífsins og í staðráðni þeirra í að vanvirða þjóðræn stöðutákn.
„Þeir eru börn sama illa hugarfars og það er skylda okkar að standa í hárinu á þeim,“ sagði Bush í ræðu sinni. Fjölmiðlar ytra segja Bush virðast meðal annars hafa verið að tala um árásina á þinghúsið í Washington DC þann 6. janúar.
Þá sagði hann stóran hluta stjórnmála í Bandaríkjunum nú snúast um reiði, ótta og gremju.
Bush sagðist ekki hafa lausnir á reiðu. Þess í stað vísaði hann til Bandaríkjanna í kjölfar árásanna árið 2001. Þá hafi hann séð milljónir manna taka í hendur nágranna sinna og að þjóðarandinn hefði snúist um sameiningu. Það væru Bandaríkin sem hann þekkti.
AP fréttaveitan segir Joe Biden, núverandi forseta, hafa hrósað ræðu Bush í hástert en hann heimsótti einnig Shanksville, þar sem áðurnefnd flugvél hrapaði til jarðar í Pennsylvaínu.
Hlusta má á alla ræðu forsetans fyrrverandi hér að neðan.