Danski landsliðsfyrirliðinn Simon Kjær heillaði greinilega Klopp eins og marga aðra þegar hann átti sinn þátt í að bjarga lífi Christians Eriksen á Evrópumótinu í fótbolta í sumar.
Kjær kom hlaupandi fram völlinn þegar Eriksen féll til jarðar og kom honum í læsta hliðarlegu svo að tungan lokaði ekki öndunarveginum.
„Vanalega einbeiti ég mér að eigin leikmönnum en ekki andstæðingunum en í kvöld verð ég að gera undantekningu,“ skrifaði Klopp í leikhefti Liverpool vegna leiksins.

„Í kvöld er mögulegt að Simon Kjær spili á móti okkur og það er manneskja sem að allur fótbolta- og íþróttaheimurinn ber mikla virðingu fyrir,“ skrifaði Klopp. Hann vísaði að sjálfsögðu til þess þegar Kjær kom til aðstoðar eftir að Eriksen fór í hjartastopp á Parken í júní, í leik gegn Finnlandi á EM.
„Þegar að menn lenda í hættulegum aðstæðum þá sést sönn leiðtogahæfni. Ég held að heimurinn hafi enn meiri skilning á því nú en áður, eftir allt það sem gengið hefur á,“ sagði Klopp.
„Eins og milljónir annarra þá var ég í áfalli eftir það sem á gekk á Evrópumótinu í sumar, þegar Christian Eriksen hneig niður. Það voru margar hetjur á ferð það kvöld, ekki síst allt sjúkrateymi danska landsliðsins, á leikvanginum og á sjúkrahúsinu. En Simon skein á sinn eigin hátt á þessum átakanlega degi,“ skrifaði Klopp.
Leikur Liverpool og AC Milan hefst klukkan 19 í kvöld og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2.

Meistaradeild Evrópu er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Meistaradeildin er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.