Fótbolti

Bayern bauð upp á átta marka sýningu eftir jóla­fríið

Sindri Sverrisson skrifar
Luis Díaz og Michael Olise áttu ríkan þátt í risasigri Bayern í kvöld.
Luis Díaz og Michael Olise áttu ríkan þátt í risasigri Bayern í kvöld. Getty/Stefan Matzke

Bayern München setti upp algjöra sýningu í fyrsta leik sínum eftir jólafríið, þegar liðið vann risasigur gegn Wolfsburg, 8-1, í þýsku 1. deildinni í fótbolta.

Bayern komst yfir strax á fimmtu mínútu með sjálfsmarki en gestirnir náðu að jafna, og þó að Luis Díaz kæmi Bayern yfir á ný þá var staðan bara 2-1 í hálfleik.

Í seinni hálfleiknum opnuðust hins vegar allar flóðgáttir og Bayern skoraði þá fimm mörk á 25 mínútum, og komst í 7-1 þegar enn var korter eftir af leiknum.

Michael Olise átti stjörnuleik og skoraði tvö mörk auk þess að leggja upp eitt, og Luis Díaz var litlu síðri á hinum kantinum með mark og tvær stoðsendingar. Harry Kane skoraði eitt markanna og lagði upp annað fyrir Raphaël Guerreiro, en tvö mörk voru sjálfsmörk.

Leon Goretzka bætti svo við áttunda marki Bayern í lokin.

Lærisveinar Vincent Kompany hafa enn ekki tapað leik í þýsku deildinni í vetur og eru með 44 stig eftir 16 leiki. Wolfsburg er hins vegar í 14. sæti með 15 stig, þremur stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×