Síðasti leikur dagsins í ensku úrvalsdeildinni var viðureign Aston Villa og Everton. Fór það svo að Villa vann öruggan 3-0 sigur en fyrir leikinn hafði Everton ekki tapað undir stjórn Rafa Benitez.
Eftir markalausan fyrri hálfleik var það hægri bakvörðurinn Matty Cash – sem gæti bráðum leikið fyrir pólska landsliðið – sem kom Aston Villa yfir með góðu skoti eftir að hafa óvænt verið mættur inn í vítateig Everton. Aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 2-0 þegar Lucas Digne setti hornspyrnu Leon Bailey óvart í eigið net.
Bailey gulltryggði svo sigur Aston Villa með frábæru marki þegar stundarfjórðungur lifði leiks. Staðan orðin 3-0 og reyndust það lokatölur leiksins. Fyrsta tap Everton á leiktíðinni þar með komið í hús.
Með sigrinum fer Villa upp í 10. sæti með sjö stig á meðan Everton er í 5. sæti með 10 stig.