Í tilkynningu frá lögreglu og almannavörnum segir að hraun sé nú tekið að flæða yfir varnargarða skammt frá gönguleið A og að ekki muni líða á löngu þar til flæða muni yfir gönguleiðina og ofan í Nátthagakrika.
Lögregla og björgunarsveitir vinna nú að því að rýma gönguleiðina, en fólki er bent á að koma sér á gönguleið B eða C. Mælt er sérstaklega með gönguleið C í þeim efnum.
Lögregla biðlar þar að auki til fólks að fara varlega í kringum hraunið. Það sé „óútreiknanlegt“ og hraði þess geti aukist snögglega.

Mikill gangur hefur verið í gosinu síðustu daga og þúsundir ferðalanga lögðu leið sína að gosstöðvum í gær.