Ásmundur Einar Daðason, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík norður, telur afrek sitt í trukkadrætti á Grandanum í Reykjavík í dag merki um sterkar líkur á að hann drífi inn á þing í sínu kjördæmi á morgun.
Ráðherrann atti kappi við heimsfræga breska grínista, Rob Becket og Romesh Ranganathan, sem ferðast um heiminn og keppa í alls konar aflraunum. Vanalega láta þeir duga að keppast innbyrðis en nú fengu þeir íslenskan andstæðing að borðinu.
„Ef ég næ þessu ekki yfir línuna mun ég biðja ykkur um að birta þetta eftir kosningar en ekki fyrir,“ sagði Ásmundur Einar við fréttastofu áður en leikar hófust.
Ef bíllinn fer yfir línuna ferð þú inn í Reykjavík norður?
„Þá skulum við vona að það sé merki um að ég sé líka að fara yfir línuna.“
Hvort ertu stressaðri fyrir bílnum eða kosningum? „Ég er stressaðastur fyrir því ef ég kem ekki bílnum yfir línuna, þá er ég stressaðastur yfir þessari frétt hérna.“
Allt kom fyrir ekki og Ásmundur leysti verkefnið með glæsibrag. Grínistarnir voru því réttilega stressaðir í aðdraganda átakanna og sögðu í því sambandi að ekki bætti úr skák að hafa fjölmiðla og fjölda myndavéla viðstadda.
En voru þeir fúsir að rétta frambjóðanda í fallhættu hjálparhönd? „Ja, ég þyrfti að sjá stefnuna hans áður. Ég veit ekki betur en að hann gæti verið alger brjálæðingur.,“ sagði Rob í samtali við fréttastofu.
Fréttamaður upplýsti tvímenningana um að hér væri á ferð hinn mesti miðjumaður. Já, það segja þeir allir, sagði Rob, og Romesh hélt áfram: „Það er það sem þeir segja allir í byrjun og svo taka þeir upp algera öfgastefnu. Ég hef séð það gerast áður, þú skalt ekki efast um það.“
Rob svaraði kollega sínum: „Nei, róum okkur nú. Hann er ekki þannig gaur,“ sagði hann um Ásmund sinn.

Ásmundur bar sigur úr býtum og vildi ekki segja af eða á um það hvort það þýddi endilega að hann ætti sigur vísan á morgun: „Við erum búin að hefna fyrir IceSave og þorskastríðin held ég. Ég komst yfir þessa línu. Nú er það bara línan á morgun. Það er í höndum þjóðarinnar, ekki mín.“
Hann hafði í það minnsta ekki tryggt sér atkvæði Brimar Rúnar Hrannar sem mætti til að hitta Rob og Romesh, sem hún hefur dálæti á í sjónvarpinu. „Hann kemst nálægt því en nei. Ég er búin að ráðstafa mínu atkvæði. En þetta er gott plögg svona rétt fyrir kosningar,“ sagði Brim.