Hvalrekans varð fyrst vart seint í gær og þegar fréttastofu bar að garði í morgun var búið að girða hræið af með bandi. En skólakrakkar af Álftanesi létu lögregluborðann ekki stöðva sig frekar en ýldulyktina - og sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar, sem mættu á ellefta tímanum til að taka sýni úr hræinu og mæla það, þurftu að sinna vinnu sinni umkringdir Álftnesingum.

Er eitthvað vitað af hverju hann er kominn, hvað gerðist?
„Nei, það er ekki að sjá neitt á honum. Náttúrulegar orsakir eða árekstur við skip eða eitthvað,“ segir Sverrir Daníel Halldórsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun.
Nemendur á leikskólanum Krakkakoti, sem mættir voru í fylgd kennara sinna til að taka hvalinn út, höfðu þó ákveðnar hugmyndir um örlög hrefnutarfsins. Vangaveltur krakkanna um hvalinn má heyra í fréttinni hér fyrir neðan.