City lagði inn kvörtun til Liverpool eftir leikinn á sunnudaginn vegna stuðningsmanns Rauða hersins sem hrækti á meðlim í starfsliði gestanna.
„Starfsliðið sagði mér frá þessu en ég sá atvikið ekki,“ sagði Pep Guardiola, knattspyrnustjóri City, í viðtali eftir leik.
Í samvinnu við lögregluna í Merseyside freistar Liverpool nú þess að finna hrækjarann. Liverpool er afar ósátt við framkomu hans og er tilbúið að setja hann í ævilangt bann frá heimaleikjum liðsins.
Leik Liverpool og City lauk með 2-2 jafntefli. Rauði herinn komst tvisvar yfir í leiknum en City-menn jöfnuðu í tvígang.
Liverpool er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig, einu stigi og einu sæti á undan City.