Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur ákveðið að framkvæmdaleyfi fyrir Suðurnesjalínu 2 skuli standa hjá Grindavík og Reykjanesbæ en hefur fellt leyfi Hafnarfjarðar úr gildi, sem verður að taka málið aftur fyrir.
Nefndin hefur einnig fallist á kröfu Landsnets, sem er framkvæmdaaðili línunnar, um að fella úr gildi ákvörðun Sveitarfélagsins Voga, sem vildi ekki veita fyrirtækinu framkvæmdaleyfi.
Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets er gríðarlega sáttur með niðurstöðuna:
„Við höfum verið að vinna að mjög mikilvægri framkvæmd, Suðurnesjalínu 2, og það er gríðarlega mikilvægt að það sé kominn úrskurður sem er leiðbeinandi fyrir framhaldið,“ segir hann.

Óljóst hvort Vogar verði að samþykkja loftlínu
Vogar verða nú að taka það aftur til skoðunar hvort það muni veita framkvæmdaleyfið.
„Jú, það er alveg rétt að sveitarstjórnin hér lagði til að strengurinn færi í jörð. Nú hefur synjun sveitarstjórnarinnar á umsókn Landsnets um framkvæmdaleyfi til að leggja loftlínu, sú ákvörðun sveitarstjórnarinnar hefur verið ógild í þessum úrskurði og það eru bara fyrst og fremst mikil vonbrigði,“ segir Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Voga.
Hann segir of snemmt að segja til um hvort að með úrskurðinum sé sveitarfélagið í raun neytt til að veita Landsneti leyfi fyrir loftlínu.
Fyrirtækið er þó bjartsýnt á að það verði niðurstaðan:
„Í sjálfu sér er málið alfarið í höndum sveitarfélagsins. Hins vegar koma fram í úrskurðinum leiðbeiningar um að þessi framkvæmd sé samfélagslega mjög mikilvæg og það eigi að taka ákvörðun ekki bara byggða á hagsmunum sveitarfélagsins heldur samfélagsins alls á svæðinu. Og ég vonast til þess að sveitarstjórnin skoði það mál sérstaklega,“ segir Guðmundur Ingi.