Álaborg vann þá ellefu marka sigur á heimamönnum í Al Wehda, 38-27, en heimsmeistarakeppnin fer að þessu sinni fram í borginni Jeddah á vesturströnd Sádí Arabíu.
Danska liðið var komið níu mörkum yfir eftir fyrri hálfleikinn, 19-10, og var með góð tök á leiknum allan tímann.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari danska liðsins og liðið varð danskur meistari undanfarin þrjú ár og komst í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð.
Aron Pálmarsson gekk til liðs við danska félagið frá Barcelona í sumar en hefur verið að glíma við meiðsli.
It's a commanding win for Aalborg in the second-to-last 2021 IHF Men's #SuperGlobe quarter-final, taking the Danish side to their first appearance in the medal round pic.twitter.com/FR3cLIxOO0
— International Handball Federation (@ihf_info) October 6, 2021
Sebastien Hein Barthold var markahæstur hjá Álaborg með átta mörk en Sven Jonas Samuelsson skoraði sjö mörk. Barthold skoraði öll mörkin sín í fyrri hálfleiknum.
Álaborgarliðið mætir þýska liðinu SC Magdeburg í undanúrslitaleiknum á morgun en þýska liðið vann sinn leik í átta liða úrslitunum fyrr í dag.
Með liði SC Magdeburg spila einmitt íslensku landsliðsmennirnir Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Það verður því Íslendingaslagur í undanúrslitunum.
Arnór mun þar líka mæta sínu gamla félagi en hann hóf atvinnumannaferil sinn á sínum tíma hjá liði Magdeburg árið 2004 og var þar til 2006 þegar hann fór til FCK í Danmörku.