Hún var að vonum ánægð í leikslok og fannst allt annar bragur á íslenska liðinu en í stórtapinu gegn Svíþjóð á fimmtudaginn.
„Við byrjuðum frá fyrstu mínútu og við skulduðum góðan leik. Það var svo geggjuð stemmning í húsinu og margir sem mættu. Við skulduðum áhorfendum að vinna þennan leik og þetta var frábært að geta gert það,“ sagði Elín eftir leik.
Ísland var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 10-8, og komst fjórum mörkum yfir í byrjun seinni hálfleiks, 13-9. Þá kom slæmur kafli og Serbía náði forystunni, 14-15. Íslenska liðið var þó fljótt að ná áttum, skoraði þrjú mörk í röð og leit aldrei um öxl eftir það.

„Það var gríðarlega mikilvægt að vinna sig fljótt út úr þessum slæma kafla. Þetta gerist í öllum leikjum en það er misjafnt hversu langir þeir eru. Við slökuðum bara á, fórum ekki á taugum og tókum bara næsta bolta. Það er það sem Arnar [Pétursson, landsliðsþjálfari] segir alltaf við okkur: það er bara næsti bolti,“ sagði Elín.
Varnarleikur Íslands var til mikillar fyrirmyndar í dag enda skoraði Serbía aðeins 21 mark í leiknum.
„Þær voru geggjaðar fyrir framan mig og þess vegna var ég með þessa vörslu. Þær gerðu það sem ég vil að þær geri,“ sagði Elín sem átti skínandi góðan leik í íslenska markinu.
„Ég er mjög stolt af sjálfri mér. Þetta er geggjað að fá góðan leik með landsliðinu og á hæsta getustigi. Mér fannst ég skulda stelpunum góðan leik. Þær voru búnar að vera svo ógeðslega góðar í vörninni að ég ætlaði að taka þessa síðustu bolta,“ sagði Elín sem varði síðustu tvö skot Serba í leiknum.